Um Retorik.is


Retorik.is er vettvangur til að fræða almenning um retórík sem fag og hvernig retórík birtist í samfélaginu. Hér verður fjallað um stjórnmál, greinaskrif, góð skrif, klunnaleg skrif, ræður, trúverðugleika, tilfinningar, rökfærslu, myndir, myndbönd, auglýsingar og fleira. 

Hér verður einnig:

– Varpað ljósi á góða siði og ósiði í íslenskri umræðu. Hér verða stjórnmálamenn og fjölmiðlar í brennidepli; hvenær þeir sýna gott fordæmi og hvenær þeir gerast sekir um retórísk óheilindi.

– Frætt um retórík og hvernig hinn almenni borgari getur komið sínum sjónarmiðum á framfæri á markvissan og heiðarlegan hátt

– Hvatt til samfélagsumræðu sem ekki er bundin flokkapólitík.

Retórík sem verkfæri borgaranna

Þeir stjórnmálamenn sem eru (retórískt) heiðarlegir setja fram málefnaleg og viðeigandi rök, svara spurningum á skýran hátt og fara vel með staðreyndir. Óþægilega margir stjórnmálamenn afbaka hinsvegar staðreyndir (sérstaklega tölur) eftir hentisemi. Aðrir reyna að koma sér undan að svara spurningum og enn aðrir setja fram rök sem við fyrstu sýn virðast ágæt – en við nánari athugun kemur í ljós að eru rotin. 

Á Íslandi eru ekki margir sem gagnrýna ósiðina sem slíka. Það getur verið vegna þess að fólk áttar sig einfaldlega ekki á þeim og/eða vegna þess að ráðgjafar stjórnmálamanna eru flinkir.

Í mínum huga eiga borgararnir hins vegar kröfu til stjórnmálamanna um að þeir noti tungumálið á heiðarlegan hátt. En með þessari kröfu fylgja líka skyldur. Ef stjórnmálamenn eiga að hegða sér eins og dannað fólk, verðum við hin að gera það líka. Og það þýðir m.a. að við verðum að endurskoða sýn okkar á samfélagsmiðlana. Erum við reiðubúin að ræða málin eins og fullorðið fólk eða gerum við athugasemdakerfin að botnlausu kommentaklóaki?

 

 

Ábyrgðarmaður retorik.is er Daily Snow Leth (kt.: 181286-2109), stud.mag i retórík við Kaupmannahafnarháskóla.
Daily er einnig retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken og ritstjóri hjá Retorik Magasinet.