Þegar spurt er um siðferði á ekki að vísa í lög

http://www.retorik.is/wp-content/uploads/2016/04/tilfaersla.jpghttp://www.retorik.is/wp-content/uploads/2016/04/tilfaersla.jpgÞegar spurt er um siðferði á ekki að vísa í lög

Undanfarna daga hefur verið talað um siðferði og löggjöf sem tvo óaðskiljanlega þætti. Annaðhvort hefur verið nefnt að lögin byggist á eða endurspegli almennt siðferði, eins og Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti, sagði í Kastljósþættinum um Panamagögnin, eða þá að fólk styður siðferði sitt við þau lög sem eru til staðar, eins og Sigmundur Davíð gerði í viðtali við Vísi.

Þetta eru rökfræðilega gild rök og nokkuð sannfærandi. Þó býr að baki þeim viss forsenda sem móttakandinn verður að samþykkja. Og þar sem lógíkin er einföld getur verið erfitt að koma auga á forsenduna og því er hætta á því að maður samþykki forsenduna án þess að gera sér grein fyrir því. Þessi taktík er algeng en ekki til fyrirmyndar.

Þegar reglur byggjast á siðferði

Til að byrja með er vert að sundurgreina rökin og skoða hvern lið í rökfærslunni einan sér. Nota má rökfærslumódel Toulmins til að skoða hvern lið fyrir sig. Toulmin deilir rökum upp í þrjá meginhluta; staðhæfingu, ástæðu þess að staðhæfingin er gild og það sem réttlætir að staðhæfingin og ástæðan eru gild (réttmæti), sem getur t.d. verið alhæfing, samlíkingar eða skilgreining. Rétt er að taka fram að það sem réttlætir rökin fyrir einum þarf ekki að vera næg réttlæting í augum annars.

Byrjum á svari Kristjáns við spurningunni: „Eru stórar siðferðisspurningar í svona fléttum?“

„Ég er nú bara að skoða þetta út frá lagalegu sjónarmiði. Þetta eru lögin og það er nú yfirleitt þannig að lögin endurspegla siðferðið. Við erum að fara eftir lögum í landinu og ef það er farið eftir lögum þá hlýtur það að vera siðferðilega rétt.“

Staðhæfing: Þessar fléttur eru (hljóta að vera) siðferðislega réttar.
Ástæða: Lög eru ekki brotin þegar slíkar fléttur eru gerðar.
Réttmæti: Ef lög eru ekki brotin gerir maður ekki siðlausa hluti, þar sem lögin endurspegla siðferðið.

arg1

Forsenda þess að þessi rök eigi rétt á sér er auðvitað sú að lögin nái yfir öll möguleg atvik sem talist gætu siðlaus. Eins og Sævar Finnbogason, heimspekingur, benti á í grein sinni, er framhjáhald talið ansi siðlaust, enda grefur það undan trausti milli maka. Og þó er framhjáhald ekki bannað með lögum (ekki enn, að minnsta kosti).

Finna má mýmörg dæmi hegðunar sem er eða var lögleg en telst þó siðferðislega ótæk. Án þess að ætlunin sé að líkja saman fjármálum og kynferði á nokkurn hátt, þá er áhugavert að nefna lög sem sett voru á í Danmörku árið 2015 um bann við kynlífi með dýrum. Já, þið lásuð rétt: kynlíf með dýrum var ekki bannað í Danmörku fyrr en í apríl 2015. Þangað til lögin voru sett á laggirnar var löglegt að gera út íslenska hesta í dýravændi og mikil eftirspurn eftir þeim. Flestum verður líklega óglatt við þessa tilhugsun, enda stangast þetta á við siðferði flestra. Það endurspeglaðist hins vegar ekki í dönskum lögum fyrr en fyrir ári síðan. Lögin endurspegluðu einfaldlega ekki siðferði almennings.

Það sama gildir um lög sem banna hluti sem flestir telja siðferðislega boðlega. Þar má nefna lög Þriðja ríkisins sem bönnuðu fólki að fela eða aðstoða Gyðinga. Flesta hryllir við byrjunaratriðinu í myndinni Inglourious Basterds, þar sem gyðingaveiðarinn Hans Landa leitar uppi gyðingafjölskyldu sem franskur borgari reyndi að fela. Fæstir hafa samúð með Landa og vona að fjölskyldan lifi af, enda eru þjóðernishreinsanir siðferðislega rangar að mati flestra. Lögin endurspegluðu ekki siðferði borgaranna.

Ef öll lög endurspegla siðferði væri fáum lögum breytt. Martin Luther King hefði tapað baráttu sinni fyrir nauðsynlegum lagabreytingum á siðferðislega forkastanlegum lögum sem héldu svörtum og hvítum Bandaríkjamönnum aðskildum.

Þegar siðferðið er byggt á reglum

Sigmundur Davíð sagði m.a. í viðtali við Vísi að „það [væri] engin bein skylda og ekki ætlast til þess að menn [skráðu] eignir maka í þessari hagsmunaskráningu“ þegar hann var inntur eftir því hvort það stæðist siðferðislega skoðun að hann hefði ekki skráð Wintris í hagsmunaskrá þingmanna.

Hann var svo spurður hvort siðferðið næði ekki lengra en sem reglurnar kvæðu á um. Við því svaraði hann m.a.:

„Jú. Ég byggi mitt siðferði á lögum og reglum. Sem stjórnmálamaður byggi ég mitt siðferði á því að gera samfélaginu sem mest gagn. […] Freistingin var alltaf sú, þegar öll spjót beindust að mér, að segja að ég væri svo sannfærður um þessa leið, að ganga svona hart fram gegn kröfuhöfum, að ég væri tilbúinn að ganga á hagsmuni eiginkonu minnar. Mér fannst ekki siðferðislega rétt að blanda henni í þessa umræðu til að upphefja sjálfan mig.“

Hér fer Sigmundur um víðan völl að vanda. Þess vegna er mikilvægt að skoða nánar og búta niður þá tengingu sem hann býr til milli siðferðis og laga.

Staðhæfing: Málið stenst siðferðislega skoðun (undirskilið).
Ástæða: Lögin skylda alþingismenn ekki til að gefa upp eignir maka.
Réttmæti: Lögin skilgreina það sem er siðferðislega rétt.

arg2

Með sömu rökfærslu og Sigmundur notar mætti segja að honum finnist í lagi að halda framhjá konunni sinni þar sem lög og reglur banna ekki slíka hegðun. Þó þætti fæstum slík hegðun til fyrirmyndar. En rökfærslan býður upp á það.

Þess vegna verður að skoða forsendurnar. Ef maður gefur sér að forsendurnar séu þær að lögin nái utan um öll tilfelli sem teljast siðlaus, þá eru forsendurnar einfaldlega rangar.

Talaðu um siðferði, ekki lög

Mörgum stjórnmálamönnum er tamt að nota svokallaða tilfærslu þegar þeir svara spurningum. Til eru mismunandi tegundir tilfærslna, en í þessu tilfelli þá breytir þá sem svarar um það sem nefnist topos í retórík. Stutta skilgreiningin á topos er „staður“, eða sá sjónarhóll sem horft er af. Oft má skoða málin frá ýmsum sjónarmiðum (topoi), ss. fjárhagslegum, lagalegum, heilbrigðis- eða umhverfissjónarmiðum. Það er flestum kunnugt um að umhverfisverndarsinnar aðhyllast náttúruverndarsjónarmið en ýmsir aðrir vega og meta málið út frá fjárhagslegum sjónarmiðum.

Þegar spurt er um siðferði er ósiður að svara á lagalegum forsendum undir því yfirskini að lögin byggist á siðferði eða öfugt. Þannig víkur sá sem svarar sér undan því að svara frá sjónarhorni þess sem ber upp spurninguna, nefnilega siðferðislega sjónarhorninu. Sú taktík afvegaleiðir þá sem taka þátt í umræðunni. Þegar spurt er um siðferði ætti að svara út frá eigin siðferðislega mati án þess að vísa í lögin.

Siðferðið býr í fólki, ekki lögum

Siðferði hlýtur alltaf myndast í huga þess fólks sem í hlut á og aldrei út frá lagalegum skilgreiningum. Lögin ná einfaldlega ekki yfir alla þá hegðun sem mögulega gæti talist ósiðleg. Ef svo væri yrði lögunum aldrei breytt. Þau væru fullkomin.

Þegar stjórnmálamenn bera fyrir sig lög í tilvikum þar sem skortir á siðferðið erum við á á hálum ís. Stjórnmálamenn ættu ekki einungis að vera fyrirmyndir þegar kemur að því að framfylgja lögum heldur einnig þegar kemur að því að setja öðru fólki gott siðferðilegt fordæmi.

Þegar Bjarni Benediktsson ákvað að túlka lögin um skráningu á félögum á þann hátt sem hann gerði, þ.e.a.s. ekki setningafræðilega heldur alfarið eftir eigin höfði, tók hann ákvörðun út frá eigin siðferði. Siðferðiskennd hans sagði honum að hann þyrfti ekki að skrá Falson & co. á hagsmunaskrá þingmanna; félag sem var með uppdiktaða stjórnendur; félag sem var beinlínis hannað til þess að fela eignarhald; félag sem var staðsett í landi sem er þekkt skattaskjól, með tilkomu lögfræðifyrirtækisins Mossack Fonseca sem aðstoðar auðmenn við að koma eignum sínum undan skatti. Hann valdi að túlka lögin sér í hag. Hann naut vafans, ekki þjóðfélagið eða þingið.

Lögum má breyta og stjórnmálamönnum má skipta út. Spurningin sem nauðsynlegt er að svara snýst um það hvort þjóðfélagið hefur áhuga á að hafa siðferðislega meðvitaða stjórnmálamenn inni á þingi eða ekki.


Fáðu greinarnar beint í pósthólfið!

Skráðu þig núna og fáðu Retórík sent beint í pósthólfið þitt

Við lofum að spamma þig ekki og gefum aldrei netfangið þitt áfram. Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.