Það er oft best að vera fórnarlamb

Það er oft best að vera fórnarlamb

Leiðari Jóns Trausta Reynissonar á Stundinni í gær um fórnarlambaleik ráðherranna, varpar ljósi á ákveðið stig í ‘hreinsunarferli’ (stjórnmála)manna. Þessi hegðun einskorðast að sjálfsögðu ekki við stjórnmálamenn og enn síður við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hreiðar Már sagði t.a.m. embætti sérstaks saksóknara á nornaveiðum árið 2014, þegar þriðja ákæran á hendur Kaupþingsmönnum var þingfest í Héraðsdómi. Hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi núna í október. Vigdís Hauksdóttir, þingkona, segir hulduher vera á eftir Framsóknarflokknum og svona mætti lengi telja.

Að finna annan geranda eða blóraböggul virðist vera náttúrulegt, manneskjulegt ferli.

Í retórík finnst kenning Kenneth Burke um dramatisma. Í stuttu máli fer ákveðið gangverk af stað þegar manneskja finnur fyrir sektarkennd (Burke notaði orðið „guilt“ sem nær yfir spennu, kvíða, viðbjóð og aðrar ‘eitraðar tilfinningar’). Lykilfasarnir í þessu ferli eru victimage, þar sem viðkomandi kemur sökinni yfir á aðra (finnur blóraböggul – í þessu tilfelli er sökinni um upprunalega gjörninginn ekki komið á aðra heldur neitar A og reynir að fá stöðu fórnarlambs, þ.a.l. er kominn nýr gerandi, B, sá sem ásakar saklausan einstakling) eða mortification, þar sem viðkomandi tekur á sig sökina og biðst fyrirgefningar. Báðir fasarnir leiða til lausnar eða frelsunar á ástandinu.

Fyrri leiðin (victimage) krefst þó hins vegar að ef A er hreinsaður þá er mannorð B flekkað, eða: ef A lifir, þá deyr B. Til að Hanna Birna sleppi verður hún að fórna t.d. blaðamönnunum eða aðstoðarmanni sínum – henni tókst einungis það síðarnefnda.

Einnig geta aðrir fundið blóraböggul fyrir viðkomandi, t.d. flokksfélagar, viðskiptafélagar eða fjölskyldumeðlimir. Sem dæmi má nefna Jón Bjarnason, þegar var gagnrýndur af flokksfélögum sínum og Samfylkingunni í seinustu ríkisstjórn. Hann var einnig gerður að fórnarlambi eineltis.

Seinni leiðin (mortification) krefst þess ekki að B líði fyrir syndir A, enda tekur A á sig alla sökina og biðst vægðar. Það var tilfellið með Bill Clinton i Lewinsky málinu (þar sem vörn hans var þó í nokkrum útpældum stigum) og verður fjallað um það mál síðar.

Stjórnmálamenn munu alltaf leitast við að viðhalda sinni stöðu í metorðastiganum (eða færa sig ofar). Oft er besta lausnin við ásökunum að finna blóraböggul og flekka mannorð annarra. Það vita stjórnmálamenn. Ef það virkar ekki getur verið nauðsynlegt að játa á sig sökina (ef maður vill halda stöðu sinni), til að endurheimta virðingu og traust borgaranna. Það er líklega of seint fyrir Hönnu Birnu. Bjarni er líklegast hólpinn og Illugi vegur salt í augnablikinu.

Það er margt til í leiðara Jóns Trausta. Að ‘leika’ fórnarlamb fjölmiðlaofsókna getur fært fókus frá ráðherranum og yfir á aðra (framing). Það er hins vegar ekki heiðarlegasta leiðin. Þess vegna er öflug, frjáls og óháð fjölmiðlun mikilvæg; svo að lygin eigi erfiðara með að finna skjól á skrifstofum ráðherranna.

Ef ráðherrar hafa áhuga á að hreinsa mannorð sitt áður en ‘ofsóknirnar’ hefjast geta þeir byrjað á því að svara spurningum í stað þess að fara undan í flæmingi.

Borgararnir eiga rétt á að fá að vita sannleikann. Ráðherrar eiga ekki að njóta vafans.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.