Stílbrögð

Hér verður lauslega gert grein fyrir helstu stílbrögðum í málinu. Listinn er alls ekki tæmandi og verður uppfærður hægt og rólega. Fyrir áhugasama má benda á tilraunaútgáfu Handbókar um stílfræði og Dansk Stilistik.

Myndhverfing (Metafora)

Tvö fyrirbæri eru færð saman án tengilidar (samanburðarorðs). Í metafóru eru ýmist tveir liðir; kenniliður og myndliður. Dæmi: Þú ert algjör asni! „Þú“ er kenniliður og „asni“ myndliður.

Líking (simile)

Líking er náskyld metafóru. Munurinn liggur í tenglið á milli kenniliðs og myndliðs.

Dæmi: „Hann emjaði eins og stunginn grís“ (Hann = kenniliður, eins og = tengiliður, stunginn grís = myndliður)

eða: „Þú ert eins og asni“ – hér verður fyrrnefnd metfóra að líkingu, því við hefur bæst tengiliður.

Persónugerving (prosopopoeia)

Abstrakt hugtök, dauðir hlutir eða náttúrufyrirbæri fá mannlega eiginleika. Persónugerving getur bæði verið myndhverfing (metafora) og líking (simile).

Dæmi: “Nú skil ég stráin, sem fönnin felur/og fann þeirra vetrarkvíða.” (Nú skil ég stráin, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Hér hafa stráin (kenniliður) fengið þann mannlega eiginleika að kvíða vetri (myndliður). Hér er einnig um myndhverfingu (metafora) að ræða.

Nafnskipti (metonymi)

Einu orði er skipt út fyrir annað, svo merkingin verður óeiginleg. Dæmi: „Að lesa verk eftir Shakespeare“ verður að „að lesa Shakespeare“ – „Hann les Shakespeare daginn út og daginn inn“. Hér er höfundur settur í stað verkanna.

Efni fyrir hlut. Dæmi: „Hún var með ref á höfðinu“ (húfu úr refaskinni)

Ílát fyrir innihald: „Eigum við að fá okkur bauk?“ (bjórdós)

Táknið fyrir það sem það táknar: Amor = ást, Ægir = hafið

Tengsl á milli orðanna getur verið allavega.

Synekdoke

1. Hluti fyrir heild (pars pro toto): Hluti einhvers (t.d. manns, veru, fyrirbæris) er nefndur í stað sjálfs hlutarins.

Dæmi: „get your ass in my office!“ – hér táknar rass allan líkamann. „Að bjarga eigin skinni“.  „Fátæk sál“.

„Kjölur“ og „segl“ = skip

Þetta stílbragð er náskylt nafnskiptum (metonymi). Munurinn er sá að í metonymi er hluturinn ekki hluti af heildinni, heldur algjörlega ótengt hlutnum.

2. Eintala fyrir fleirtölu (enallage numeri): „Guð fæðir maðk í mold, því hann öllum skepnum ann“ (Ingemann. Ljósberinn, 2. útgáfa, 25tbl. 1922). Hér gildir „maðkur“ annað hvort yfir alla maðka eða öll dýr á jörðinni.

Ýkjur (Hyperbole)

Atriði eru stækkuð og gerð meiri en þau eiga raunverulega skilið. Sést sjúklega oft hjá unglingum (sjúklega = ýkjur) og fáránlega sjaldan hjá eldra fólki (fáránlega = ýkjur).

Úrdráttur (Litot)

Þótt stílbrögðin hafi sama tilgang (að magna eitthvað upp), er úrdráttur er einskonar andstæða ýkja og byggist oft á neitunum. Dæmi: „Hann er betri en enginn“. „Hún var ekki hávaxin“.

Skrauthvörf (Eufemismos)

Umorðun eða umritun þar sem orð, sem gætu stuðað eða hneykslað, eru sett fram á mildari hátt.

Dæmi: „hann andaðist“ í stað „drapst“, „samfarir“ í stað „ríða“.

Í pólitík gegna skrauthvörf oft taktískum tilgangi.

Dæmi: „Forvirkar rannsóknarheimildir“ yfir hleranir og persónunjósnir.

Írónía

Þegar merkingin er öfug við það sem sagt er. Getur verið tvíeggja sverð í rituðu máli þar sem blæbrigði raddar gætir ekki (sem er yfirleitt það sem undirstrikar að um íróníu sé að ræða).

Dæmi:

Jóhann: „Þú er nú meiri drullusokkurinn!“

Sigurður: „Mikið var þetta fallega sagt.“

Írónía er oft fágaðri en fyrrnefnt dæmi. John Oliver beitir t.a.m. íróníu bæði sem kímni og sem retórísku verkfæri þegar hann ræðir málefni í samfélaginu.

Skrautyrði (Epitheton ornans)

Skrautyrði eru yfirleitt lýsingarorð sem notuð eru í röð, hvert á eftir öðru, til að lýsa hlut eða persónu.

Dæmi: „Ástkæra, ilhýra málið“ (Ásta e. Jónas Hallgrímsson, Fjölnir, 1843)

Sítekning (epizeuxis)

Eitt eða fleiri orð eru endurtekin hvað eftir annað.

Dæmi: „Upp, upp, upp á fjall“ (Barnavísa, höf. óþekktur)

Forklifun (anafora)

Tvær eða fleiri setningar hefjast á sama orði eða orðum.

„I have a dream…“ – MLK endurtók þessi frægu orð átta sinnum í ræðu sinni.

„Vanur er ég að vagga á sjó,

vanur er ég á sjó.“ (S.s Montclare e. Halldór Laxness. Kvæðakver, 1992)

Bakklifun (epifora)

Tvær eða fleiri setningar enda á sama orði eða orðum.

„With this faith, we will be able to work together,
to pray together,
to struggle together,
to go to jail together,
to stand up for freedom together,“ (MLK, „I have a dream“)