Retórískt nýár: Topp 10 viðburðir ársins

http://www.retorik.is/wp-content/uploads/2015/12/retoriknyar.jpghttp://www.retorik.is/wp-content/uploads/2015/12/retoriknyar.jpgRetórískt nýár: Topp 10 viðburðir ársins

Árið 2015 bauð upp á ýmsa áhugaverða, retóríska viðburði. Hér eru 10 þeirra:

Hefðáttað gúgglann betur #gerðiþaðekki

Það fer yfirleitt ekki mikið fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn viðurkenna mistök. Hins vegar gerði Sveinbjörn Birna heiðarlega tilraun til þess í mars eftir að hún hafði verið gagnrýnd fyrir að skipa Gústaf Níelsson, sem er þekktur fyrir fordómafull viðhorf gagnvart samkynhneigðum og múslimum, sem varamann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar. Þessi vörn hennar var kannski ekki sú besta, en hún sagði þrátt fyrir allt: „Við gerðum mistök varðandi skipun í þetta ráð,“ í Kastljósinu.

Í stað þess að sýna auðmjúku hliðina restina af viðtalinu eyddi hún púðri í að verjast spurningum Sigmars. Vanhugsuð taktík. Fyrir vikið uppskar hún hashtaggið #gerðiþaðekki og þetta lag:

Nú er spurning hvort aðrir stjórnmálamenn þori að viðurkenna mistök sín eftir þessa útreið.

Illugi fór í manninn, þagði svo og sagði svo að…

Hvað gerir maður þegar kona spyr hann óþægilegra spurninga? Þegir! – og fer tæklar hana aðeins.

Svandís Svavarsdóttir, þingkona, spurði Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra, hverjir ættu Orku Energy í fyrirspurnartíma. Í svari hans kom fram að það væru engir íslenskir aðilar og bætti svo við:

“Ég verð að segja eins og er að mér finnst svolítið áhugavert að hlusta á þessa fyrirspurn háttivirts þingmanns. Það er eins og verið sé að reyna að gera það tortryggilegt að menn vinni hjá einkafyrirtækjum. Ég veit að háttvirtur þingmaður þekkir það ekki, hefur ekki þá reynslu. Háttvirtur þingmaður virðist samkvæmt ferilskrá sinni aldrei hafa unnið hjá neinum einkaaðilum heldur bara hjá hinu opinbera.”

Hér reynir Illugi að gengisfella spurninguna með því að fara beint í þingkonuna og gera starfsreynslu hennar að umtalsefni.

Þetta mál, sem snerist um lán og launagreiðslur til Illuga, átti eftir að vinda upp á sig en Illugi ákvað að svara engu fyrr en tæpu hálfu ári síðar og vilja sumir meina að mörgum spurningum sé enn ósvarað.

Hvað sem gerðist er víst að þögnin getur verið ærandi. Illugi reyndi svo að koma sér útúr málinu með því að snúa vörn í sókn og finna blóraböggul (scapegoating), þegar hann skrifaði:

„Þegar fjölmiðill beinir til stjórnmálamanns spurningum, studdum ónafngreindum heimildarmanni, um t.d. persónuleg fjármál, þá er langt í frá sjálfgefið að stjórnmálamaðurinn eigi að svara. Lyndon B. Johnson kallaði reyndar slík trikk „make the bastards deny it“ aðferðina, en sú aðferð byggir á því að á menn eru bornar ósannaðar ávirðingar og þeim gert að svara þeim. Þannig er hægt að halda áfram og ef síðan stjórnmálamaðurinn neitar að svara þá er sú þögn gerð grunsamleg og túlkuð sem sönnun á sekt. Ýmsar spurningar sem ég hef fengið frá fjölmiðlum vegna þessa máls falla undir þessa aðferðarfræði.“

Vissulega voru tengsl hans við Orku Energy gerð tortryggileg, en þó var ærin ástæða til þess. Margt annað en „ónafngreindur heimildarmaður“ ýtti undir grunsemdir um að Illugi hafi hyglað vinum sínum. Þess vegna hefði það verið betra fyrir hann að svara undir eins í stað þess að draga það á langinn. Hvað sem hann hefur eytt í PR-ráðgjöf, þá voru það peningar út um gluggann.

Sigmundur vs. mótmælendur

Forsætisráðherrans verður seint minnst sem manni sem var fær í að aðlaga sig retórískum aðstæðum. Honum tókst þannig að komast í gegnum þjóðhátíðarávarpið sitt án þess að nefna alla þá mótmælendur sem stóðu bak við hann og púuðu, kölluðu og börðu bumbur. Ekki eitt orð um þá. Það var eins og þeir sem mættu á Austurvöll til að minna m.a. á kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga, sem Alþingi setti lög á, væri ekki hluti af þeirri þjóð sem Sigmundur ávarpaði.

Í staðinn nefndi hann gömlu klisjuna: kaupmáttinn:

„Búið er að lækka skuldir heimilanna, störfum hefur fjölgað og hafa aldrei verið fleiri, kaupmáttur eru orðinn meiri en hann hefur áður verið í landinu, verðbólga er lág og nú blasir við að hægt verði að lækka skuldir ríkisins vegna fjármagns sem renna mun í ríkissjóð til að gera afnám hafta mögulegt. Það kemur samfélaginu öllu til góða.“

Honum tókst í það minnsta að sanna að fólk á erfitt með að ná til hans. Að standa og garga í eyrað á honum virkar ekki einu sinni. Sumir kölluðu mótmælin „mótmæli gegn lýðræðinu“ og enn aðrir báðu mótmælendur um að hugsa um börnin og rífa „hausinn út úr rassgatinu á sér.

Eldræða á Grímunni

Önnur ræða, sem er vert að minnast, er eldræða Halldóru Geirharðsdóttur, leikkonu. Þegar hún tók á móti Grímunni fyrir leik sinn í Billy Elliot sagði hún að eini munurinn á henni og hinum sem hefðu verið tilnefndir væri að hún fengi gluggann – gluggann til að tala. Og hún nýtti hann í að minna þjóðina á boðskap leikritsins:

„Mér finnst samfélagið okkar vera að halla sér of mikið í þá átt að fólk þurfi að eiga meiri og meiri pening í poka til þess að börnin þeirra eigi framtíð og eigi jafn mikla möguleika hvert einasta barn í þessu landi.“

Ræðan var tilfinningaþrungin, fólk reis úr sætum og hún uppskar dynjandi lófatak. Og svo náði hún góðu flugi á samfélagsmiðlunum.

Flóttamannaumræðan

Eitt heitasta málið á árinu var án efa flóttamannastraumurinn til Evrópu. Miklar tilfinningar, bæði hræðsla og samúð, einkenndu umræðuna. Sú umræða var einmitt upphafið að retórík.is, þegar myndbandi um þrjá ósiði í flóttamannaumræðunni var deilt tæplega 250 sinnum og er með tæplega 18.000 áhorf.

Hér eru þrír ósiðir sem stjórnmálamenn ættu að losa sig við sem fyrst.

Posted by Retorik.is on Sunday, October 4, 2015

 

Umræðan átti sínar hæðir og núna í desember náði hún nýrri hæð þegar tveimur fjölskyldum frá Albaníu var vísað úr landi. Í báðum fjölskyldunum eru langveik börn. Stór hluti þjóðarinnar reis á afturfæturnar og lyktaði málinu með því að báðar fjölskyldurnar fengu íslenskan ríkisborgararétt. Aftur sýnir þjóðin mátt sinn og megin.

Vigdís Hauksdóttir – bloggherinn, hulduherinn og andlega ofbeldið

Góðvinkona þjóðarinnar, Vigdís Hauksdóttir fær sinn eigin punkt í þessari nýársumfjöllun fyrir ýmis ummæli sín um annað fólk.

Í ágúst kallaði Vigdís kynsystur sína, Láru Hönnu Einarsdóttur, viðrini í stöðuuppfærslu á Facebook eftir að sú síðarnefnda hafði gagnrýnt hana á opinberum vettvangi. Vigdís talaði í þessu samhengi um ‘bloggherinn’ sem einnig er virkur árásum á Vigdísi. Fleiri eiga að hafa leitt her gegn þingkonunni, því stuttu síðar fletti hún ofan af Hulduhernum sem hún vill meina að er leiddur af kollega hennar, Svandísi Svavarsdóttur. Til að bæta gráu ofan á svart er hún og nefndin hennar líka beitt andlegu ofbeldi af fólki í heilbrigðiskerfinu.

Hún hefur að sjálfsögðu verið gagnrýnd fyrir þessa framkomu sína. Hér má sjá umræðu um þessi síðustu ummæli Vigdísar í þinginu

Nýir fréttamiðlar

Í lok ársins 2014 og byrjun þessa árs, eftir miklar hræringar á fjölmiðlamarkaðnum, risu upp nýir fréttamiðlar og þeirra helstir eru Kjarninn og Stundin. Þeir hafa þegar sett svip sinn á fréttaflutninginn með vönduðum fréttagreinum og pistlum. Eitt af aðalsmerkjum retóríkur er að lýsa hvert mál frá öllum hliðum og munu þessir tveir miðlar eflaust spila þar stórt hlutverk í samfélagsumræðunni á komandi ári.

Pírataspjallið

Sumir hafa tröllatrú á lýðræðið. Það er gott – það gerði Aristóteles, einn af feðrum retóríkur, líka. Hins vegar virðist Facebook ekki vera besti vettvangurinn fyrir skoðanaskipti. Píratar upplifðu það í vikunni sem leið, þegar þeir ákváðu að gefast upp á grúppunni “Pírataspjallið” á Facebook. Ástæðan var sú að fólk, sem ekki er tengt flokknum, hafði afvegaleitt umræður og farið að rífast á kommentakerfunum. Klassískt Facebook!

fbthumb

Sigmundur toppar sig

Forsætisráðherra tókst að toppa sjálfan sig á þessu ári með grein sinni “Toppari Íslands”. Greinina skrifaði hann gagngert til að berja á Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar. Retórík.is rýndi í greinina og var sú gagnrýni mest lesna greinin á þessum vef á þessu fyrsta ári hans.

Kynferðisafbrot og brjóstamyndir

Hvað hafa nauðganir, hefndarklám og geirvörtur með retórík að gera? Í sjálfu sér ekki neitt. Hins vegar hefur umræðan um bæði refsingar og þöggun í þessum málaflokki allt með retórík að gera. Umræðan náði nokkrum hápunktum á þessu ári.

Fyrsti hápunkturinn var á “Free the nipple” daginn. Þar beruðu konur á sér brjóstin, tóku mynd og settu á samfélagsmiðlana. Tilgangur baráttunnar var að gengisfella „hefndarklám,“  þ.e. þegar myndum af nöktum stelpum, sem oft eru teknar á síma, er dreift á netinu (gjarnan af fyrrverandi kærustum) sem hefnd gegn einhverju. Sumum fannst þetta „hámark plebbismans,“  en aðrir höfðu talsvert meiri skilning á þessari birtingarmynd aktívisma.

Annar hápunktur umræðunnar um kynbundið ofbeldi var Druslugangan, sem vakti athygli langt út fyrir landssteinana, þegar ríflega tuttugu þúsund manns gengu fylktu liði frá Skólavörðuholti niður á Austurvöll. Tilgangur göngunnar var að rúfja þögnina – og þöggunina – og skila skömminni til þess sem á hana; gerandans.

Nokkrum dögum síðar sauð uppúr þegar lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum var sökuð um þöggun, þegar hún ákvað að skrifa bréf til allra þeirra sem unnu að gæslumálum á Þjóðhátíð og múlbinda þá. Enginn mátti tjá sig um þær nauðganir sem yrðu tilkynntar á hátíðinni. Bæjarstjórinn tjáði sig um málið og skrifaði retórík.is um hans svar við spurningu blaðamanns um hvort ætti að leggja niður hátíðina.

Fjórði hápunktur umræðunnar kom í kjölfar nauðgunarmáls í Hlíðahverfi. Borgararnir virðast vera búnir að fá sig fullsadda af því hvernig réttarkefið tekur á kynferðisafbrotamálum og ekki síst þegar þau mál eru borin saman við fíkniefnamál.

Hér má sjá viðtal við aðstoðarlögreglustjóra um þetta mál.

Ljóst er að þessi mál munu halda áfram að vera stór hluti af þjóðfélagsumræðunni og mun eflaust ekki linna fyrr en breytingar verða á löggjöfinni og verklagi lögreglu.

Screendump af visir.is

Screendump af visir.is

 

Retórík.is þakkar fyrir viðtökurnar á árinu sem er að líða og óskar öllum borgurum landsins gleðilegs árs, með von um enn betri umræðu, sterkara lýðræði og retórísk heilindi árið 2016.


Fáðu greinarnar beint í pósthólfið!

Skráðu þig núna og fáðu Retórík sent beint í pósthólfið þitt

Við lofum að spamma þig ekki og gefum aldrei netfangið þitt áfram. Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.