Rassinn, börnin og ófriðurinn

Rassinn, börnin og ófriðurinn

Þann 17. júní 2015 var efnt til mótmæla á Austurvelli. Tilefnið var ónáægja í garð ríkisstjórnarinnar. En fólk var ósammála um hvort það væri viðeigandi eða ekki, að mótmæla á þessum hátíðisdegi. Í umræðunni um mótmælin á 17.júní fengum við þrjú dæmi um „framing“ sem eru bæði áhugaverð og athugaverð.

Í retórík notum við hugtakið „framing“. Til eru margar útlistanir og skýringar á “framing” sem á íslensku gæti kallast myndmörkun. Myndmörkun er, eins og orðið gefur að kynna, orðalag sem reynir að leiða lesandann að ákveðnum hluta af heildarmynd. Þú sem lesandi færð þess vegna dregna upp hlutdræga mynd af efninu. Stundum virkar myndmörkun, stundum ekki. Stundum er hún meðvituð og stundum ómeðvituð. Myndmörkun á sér alltaf stað og er ekki endilega slæm. En ef hún er notuð til að afbaka eða rangtúlka vísvitandi, er hún retórískt óheiðarleg

„Að mótmæla lýðræðinu“

Þessi framsetning kom m.a. frá Vigdísi Hauksdóttur, þingkonu, sem sagði mótmælendur vera að mótmæla lýðræðinu. Hér er dregin upp mynd af fólki sem er einfaldlega á móti lýðræði og mótmælir þeirri hugmynd að Ísland skuli vera lýðræðisríki. En þar stangast á tvær hugmyndir um lýðræði.

Hægt er að ímynda sér að í huga Vigdísar er „ríkisstjórnin = lýðræði“, því hún var lýðræðislega kjörin árið 2013 (sem hún vissulega var).

Í huga mótmælenda (allavega skipuleggjenda) er „lýðræði ekki aðeins á fjögurra ára fresti.“ Mótmælendur hafa þess vegna aðrar hugmyndir um lýðræði; að það sé ekki einskorðað við þingræði, þar sem borgararnir fá einungis að kjósa á fjögurra ára fresti og hafa ekkert að segja þar á milli.

Gunnlaugur Ingvarsson í Heimssýn bætti við: „Vinsamlega virðið lýðræðið!“ Hér er því ekki lengur bara verið að „mótmæla lýðræðinu“ heldur einnig verið að sýna lýðræðinu óvirðingu, ef fólk rís á fætur og lætur skoðun sína í ljós á götum úti.

Báðar þessar nálganir, að verið sé að mótmæla lýðræði sem slíku og að það sé verið að sýna því óvirðingu, með því að nota lýðræðislegan rétt sinn til að mótmæla, verða að teljast sæmileg bjögun.

Að „efna til ófriðar“

Kolbrún Bergþórsdóttir, annar ritstjóra DV, skrifaði: „Fram að þessu hefur ríkt þegjandi samkomulag í íslensku þjóðfélagi að efna ekki til ófriðar á þessum hátíðisdegi.”

Hér er um tvennt að ræða. Fyrir það fyrsta að verið sé að brjóta ákveðna hefð fyrir því að mótmæla ekki á 17. júní og í öðru lagi að mótmæli séu ófriður. Fyrir það fyrsta er fullyrðingin um þegjandi samkomulag beinlínis röng. Árið 2009 var tilefnið Icesave og ESB. Árið 2003 voru það friðarsinnar sem mótmæltu innrásinni í Írak.

Í öðru lagi er það orðalagið „að efna til ófriðar.“ Ófrið tengir maður óneitanlega við stríð og styrjöld og er einnig skilgreint þannig í orðabók. Ísland var ekki á barmi borgarastyrjaldar þann 17. júní, þótt sumum hafi þótt mótmælin óþægileg.

Börnin og rassinn

 

Og að lokum, Guðfinna J. Guðmunds, borgarfulltrúi:

„Er þessu fólki alveg nákvæmlega sama um börnin sem eru að skemmta sér þennan dag. Vona að þetta fólk geti rifið hausinn út úr rassgatinu á sér bara þennan eina dag.“

Börnin fá yfirleitt alltaf að njóta vafans, enda miklar og sterkar tilfinningar tengdar börnum. Hér höfðar Guðfinna til þeirra tilfinninga (nefnt pathos í retórík) sem tengist glöðum börnum með kandífloss, risasnuð og andlitsmálningu – í hoppukastala. Þeir sem láta sér detta það í hug að mótmæla á þessum degi, sýna að þeim „sé nákvæmlega sama“ um börnin. Þú getur því ekki mótmælt aðgerðum ríkisstjórnarinnar án þess að vera sama um börnin.

Seinni hluti ummælanna gefur til kynna að mótmælendur gangi um með höfuðskálina í endaþarminum á sér. Það er í sjálfu sér mjög áhugavert að rýna í þau orð, en ég hugsa ég láti niðurstöðuna duga: þau gætu veikt trúverðugleika Guðfinnu sem stjórnmálamanns.

Öll þessi dæmi sýna ákveðna myndmörkun í framsetningu, þegar þessir aðilar ræða um mótmælin. Vigdís segir mótmælendur vera að mótmæla lýðræðinu, Kolbrún segir þá efna til ófriðar, sem er gegn þegjandi samkomulagi, og Guðfinna segir þá vera með höfuðið í rassinum og að þeim sé alveg sama um börnin.

Sumt af þessu er bjögun í framsetningu, annað ósannindi. En einnig óþarfur munnsöfnuður borgarfulltrúa. Er ekki kominn tími á að hækka standardinn aðeins?

 


Fáðu greinarnar beint í pósthólfið!

Skráðu þig núna og fáðu Retórík sent beint í pósthólfið þitt

Við lofum að spamma þig ekki og gefum aldrei netfangið þitt áfram. Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.