Neteinelti og þursagangur

http://www.retorik.is/wp-content/uploads/2015/10/sandraborchkommentar.jpghttp://www.retorik.is/wp-content/uploads/2015/10/sandraborchkommentar.jpghttp://www.retorik.is/wp-content/uploads/2015/10/sandraborchkommentar.jpgNeteinelti og þursagangur

Sandra Borch er fyrrverandi formaður ungra miðjumanna (Sp) í Noregi. Allt sitt líf hefur hún verið lögð í einelti vegna hæðar sinnar, en hún er einungis 142 cm. Og eineltið hætti ekki eftir að hún byrjaði í stjórnmálum – þvert á móti. Í mörg ár hefur hún þurft að lesa athugasemdir um sjálfa sig í einkaskilaboðum og á athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna. Athugasemdirnar hafa verið af kynferðislegum toga, en einnig lýsingar á því hvernig ætti að flá hana lifandi og enn annar sagði að það ætti að skjóta hana.

Einn af þeim, @Drittidioten, skrifaði m.a. að hún „hafi gefið sér munnmök og hafi ekki einu sinni þurft að krjúpa á kné.“ Þeir sem hafa mátt þola einelti, á netinu eða annarsstaðar, þekkja þá tilfinningu, að vita um einhvern sem vill manni illt. En hvað getur þolandi gert, í þessari stöðu?

TV2, ásamt Borch, ákvað að hafa uppi á aðilanum og ræða við hann. Og þetta var ekkert barn. Þetta var fullorðinn maður. Þegar hann hitti Borch, fyrir framan myndavélar, iðraðist hann og sagði að hann myndi aldrei leggja neinn í einelti aftur. Stuttu síðar tók hann Twitter síðuna sína niður.

Myndbandið má sjá með því að smella á myndina hér að neðan (opnast í nýjum glugga – er á norsku)

Sandra Borch einelti

Þursar á Íslandi

Það eru fáir sem hafa möguleika á því að fá sjónvarpsstöð með sér og hafa uppi á þeim sem leggja í einelti. Það er og verður erfitt að vinna bug á einelti. Einnig er erfitt að segja hvar mörkin milli eineltis og ‘venjulegs dónaskapar’ liggja. Er það einelti að skrifa endurtekið á athugasemdakerfi eða þarf það að vera í einkaskilaboð? Gilda aðrar reglur ef um er að ræða opinbera persónu?

Eitt er víst: um leið og borgararnir samþykkja dónalegar athugasemdir sem hluta af kommentakerfakúltúrnum, afmáum við skýrar leikreglur; hvað má og hvað má ekki í athugasemdum. Rökin fyrir því að engar reglur eiga að vera til staðar eru einna helst tjáningarfrelsið. Frelsi okkar til að segja það sem okkur finnst, sama hvað það er. Og sá réttur er mikilvægur. Hins vegar er einnig mikilvægt að athuga hvað gagnast lýðræðinu og samfélagsumræðunni.

Eða á réttur þeirra sem vilja nota tjáningarfrelsið til að niðurlægja aðra, meiri en réttur þeirra sem vilja nota netið í gagnlega umræðu? Svo ekki sé talað um rétt þeirra sem verða fyrir árásinni.

Kommentakerfið. Hefurðu eitthvað að segja?

Fréttamiðlarnir sortera nú þegar það efni sem berst sem aðsendar greinar og birta ekki allt sem þeir fá í hendur. Hvers vegna ætti annað að gilda um athugasemdir? Eða er það ekki hlutverk fréttamiðlanna að tryggja góða umræðu?

Þótt fáir myndu kalla dónaskap á athugasemdakerfunum einelti, þá eru nokkuð mörg dæmi um einstaklinga sem fá niðurlægjandi athugasemdir trekk í trekk vegna skoðanna sinna. Það hlýtur að vera önnur leið til að gagnrýna viðkomandi, í stað þess vera persónulegur og niðrandi. Það hlýtur bara að vera.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.