Lengi getur vont versnað: Ráðherra toppar sig

Lengi getur vont versnað: Ráðherra toppar sig

Sigmundur Davíð toppari ÍslandsÍ morgun skrifaði forsætisráðherra landsins, æðsti maður ríkisstjórnarinnar, eina af áhugaverðustu greinum þessa árs. Hún hét “Toppari Íslands”. Þessi grein er merkileg fyrir þær sakir, að sjaldan sést leiðtogi lands skrifa grein í eitt stærsta dagblað viðkomandi ríkis, til þess eins að ráðast á annan mann sem ekki er stjórnmálamaður.

Þótt það geti verið lýjandi fyrir samfélagið að þurfa að þola málflutning eins og þann sem kemur iðulega frá forsætisráðherra, þá verður hann að eiga það, að hann er mikill fengur fyrir fagið retórík. Hann er skólabókardæmi um það sem ætti að forðast.

Hvernig á að skrifa grein?

Til að byrja með er við hæfi að uppljóstra tvö ráð sem ég gef nemendum mínum áður en þeir byrja að skrifa greinar. Það sem einkennir góðar og skýrar greinar er:

1. Eitt, skýrt markmið

Greinin ætti að hafa eitt – og einungis eitt – skýrt markmið. Ef tilgangur greinarinnar er margþættur verður erfitt að fyrir lesandann að skilja boðskapinn. Eitt skýrt markmið gæti t.d. verið: „að sannfæra borgarana um að ríkisstjórnin hefur bætt heilbrigðisþjónustuna með því að hækka útgjöld til Landspítalans um 30%,“ „að útskýra, í einföldu máli, fjármagnshöft og stöðugleikaskatt fyrir borgurunum“ eða „að láta Kára Stefánsson líta út fyrir að vera slímugur þrjótur“.

2. Markmiðið í fyrstu setningu

Markmið greinarinnar ætti helst að koma fram í fyrstu setningunni og ef hægt er, í fyrirsögninni. Því fyrr, því betra.

Ráðherrar eru yfirmenn

Þegar fyrirsögnin er „Toppari Íslands“ – sem er skírskotun í aðra nafnbót; „Forseti Íslands“ – og fyrstu 2.000 slögin (sem er næstum því heil síða!) fjalla um persónueinkenni „topparans“, sem svo er tengt við grein Kára Stefánssonar frá deginum áður, er markmið greinarinnar morgunljóst; Kári á að fá það óþvegið.

Sem leiðir okkur að því sem er mikilvægast í þessari umfjöllun: Forsætisráðherra situr á stól sem er hærri en okkar hinna. Hann hefur meiri völd, hann hefur breiðari þekkingu á fjármálum ríkisins og hann hefur umboð frá þjóðaratkvæðagreiðslu. En ef Sigmundur telur að sú staða gefi honum rétt á að tala niður til borgaranna hefur hann ekki lært um retórísk (ó)heilindi.

Þegar samskiptaaðstæður eru ósamhverfar (asymmetrical), þ.e.a.s. þegar annar aðilinn hefur meiri völd eða þekkingu en sá/sú sem viðkomandi talar við, er þeim mun mikilvægara að sá sem er ‘hærra settur’ tali rétt, satt og af heilindum. Í þessu tilfelli sjáum við ansi grófa persónuárás á mann dirfist að gagnrýna stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Forsætisráðherrann nefnir hann ekki einu sinni með nafni. Kári er ekki lengur persóna heldur „toppari“ eða „hinn sérfróði athafnamaður“. Fyrirlitningin lekur af orðunum.

Þótt Kári hafi víðtæka reynslu úr heilbrigðisgeiranum, þá hefur ráðherrann meiri völd og betri innsýn í ríkisfjármálin. Þess vegna sitja þeir ekki á jafnháum stól.

Leikur að tölum – leikur að fólki

Einnig nefnir Sigmundur ýmsar tölur sem verður að setja spurningarmerki við. T.d.: „Það sem af er kjörtímabilinu, sem er rúmlega hálfnað, hafa framlög til Landspítalans verið aukin um 30%.“

Einfalt er að leika sér með tölur. Hér verður ráðherrann – ef hann hefur áhuga á að tala af heilindum – að útskýra þessi 30%; er í þessum þrjátíu prósentum launahækkanir? Eða er um að ræða fjölgun starfsfólks, sem veitir sjúklingum betri þjónustu? Er verið að fjölga læknum til að vinna niður langa biðlista? Hvernig bæta þessi 30% heilbrigðisþjónustu landsins? Gleymir ráðherrann að nefna niðurskurði annars staðar, sem annars veikja heildarþjónustuna?

Slíkum spurningum verður að svara, áður en maður kastar fram jafn sléttri og fallegri tölu og 30% og vonast til að fólk gleypi hana. Tölur eru það sem er hvað einfaldast að bjaga.

Íslenskur ráðherra bestur í heimi í lélegum rökræðum

Umræðan er ekki alltaf falleg í stjórnmálum, það þekkjum við. En getið þið ímyndað ykkur Angela Merkel skrifa í Der Spiegel þar sem hún tæki einn forstjóra fyrir og líkti honum við sjálfhverfan og yfirlætislegan fauta? Varla. Ef hún myndi yfirhöfuð láta sér detta það í hug að skrifa grein, yrðu meginatriðin tekin fyrir og rangfærslur leiðréttar með rökum. Ekki persónuárás.

Og þar er línan dregin milli þjóðarleiðtoga sem þekkja hlutverk sitt og svo þeirra sem ekki hafa hugmynd um hvað þeir eru að gera. Þess vegna er þessi grein stórmerkileg. Ekki vegna þess að hún er sóðaleg og ræðst á Kára Stefánsson, heldur vegna þess að hún kemur frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra lýðveldisins Íslands.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.