Hvers vegna líkar fólki vel við Gunnar Nelson?

Hvers vegna líkar fólki vel við Gunnar Nelson?

Gunnar Nelson er nýja þjóðaryndi Íslendinga. Jafnvel fólki sem er meinilla við bardagaíþróttir á erfitt með að líka illa við Gunnar. En hvers vegna skrifa um hann þegar það er ekkert í MMA sem tengist retórík? Því Gunnar Nelson býr yfir ákveðnum eiginleikum sem eru mikilvægir fyrir ræðumenn (þ.m.t. stjórnmálamenn).

Ethos er hugtak sem nær yfir bæði trúverðugleika og orðstýr. Ein skilgreining hugtaksins er: „viðmót viðtakanda gagnvart þeim sem talar eða skrifar“.1 Ethos býr þannig alltaf í huga þeirra sem hlusta eða lesa en aldrei hjá þeim sem talar eða skrifar.

Ímyndaðu þér íslenskan stjórnmálamann. Hvaða stjórnmálamann sem er… Ok?

Hvað kemur upp í huga þér þegar þú hugsar um viðkomandi? Er hann/hún pirrandi? Trúverðug(ur)? Þægileg(ur)? Nennirðu að hlusta á hann/hana? Eða færðu klígju? Er viðkomandi traustvekjandi?

Þitt viðhorf gagnvart þessum einstakling er hans/hennar ethos gagnvart þér.

Ethos er ekki fasti

Þótt ethos búi alltaf í huga viðtakanda (t.d. þér), er það hvorki svo að það sé óbreytileg stærð né er það þannig að sendandi (sá sem talar/skrifar) geti ekki haft áhrif á þitt viðhorf. Áður en viðkomandi opnar munninn hefur þú ákveðna skoðun á honum/henni. Það má kalla upphafs-ethos (initial ethos). Ef viðkomandi segir eitthvað sem þér líkar við gæti viðhorf þitt gagnvart viðkomandi batnað – og öfugt ef hann/hún segir eða gerir eitthvað sem þér líka illa við. Það má kalla afleitt ethos (derived ethos). Þegar viðtalinu, ræðunni eða greininni er lokið stendur þú eftir með nýtt viðhorf gagnvart þeim sem um ræðir. Það má kalla loka-ethos (terminal ethos).

Ef ekkert gerist þar til þú heyrir aftur í viðkomandi (t.d. að þú heyrir gróusögur um hann/hana) er líklegt að loka-ethos, þ.e. það viðhorf sem þú endaðir á að hafa gagnvart aðilanum, verði upphafs-ethos næst þegar þú heyrir í viðkomandi.2

Þannig getur hann/hún byggt upp góðan orðstýr (í þínum huga) – eða á sama hátt rústað eigin trúverðugleika. Hér spilar allt inn í. Ekki einungis það sem viðkomandi segir heldur líka það sem hann/hún gerir. Gott dæmi um hvernig orðstýr getur hrunið á einni nóttu er Bill Cosby.

Æðruleysi og virðing

En aftur að Gunnari Nelson. Hvers vegna hefur Gunnari tekist að hafa þessi áhrif á svo stóran hluta þjóðarinnar? Fyrir það fyrsta er hann duglegur í sinni íþrótt. En það er alls ekki nóg. Afreksmenn geta oft verið fráhrindandi og óþægilegir í viðmóti.

Klaus Kjøller nefnir fimm „ethosdáðir“ sem eru einkennandi fyrir ímynd stjórnmálamanna.3 Þær eru:

1. Heilindi, heiðarleiki og einlægni

2. Hugsjón og náungakærleikur (d. idealisme og altruisme): viðkomandi vill öðrum einungis það besta.

3. Tæknileg færni: Sjálfsbjargarhvöt, aðlögunarhæfni, orka og framtak.

4. Innri samheldni: Áreiðanleg(ur), sjálf(ur) sér samkvæm(ur) í skoðunum og viðhorfum.

5. Vera fær um sjálfsgagnrýni, sjálfhæðni, húmor.

Þótt Kjøller tilgreini stjórnmálamenn í þessu samhengi, er hægt að yfirfæra þessar dáðir á hvern þann sem talar eða skrifar.

Gunnar Nelson býr yfir mörgum þessara eiginleika. Fyrir það fyrsta er hann einlægur og laus við tilgerð. Hann er yfirleitt rólegur og yfirvegaður þegar hann ræðir við fréttamenn. Hann sýnir iðulega æðruleysi þegar á móti blæs. Í viðtalinu hér að neðan sést það best þegar hann er spurður út í tap sitt gegn Rick Story og einnig þegar hann er spurður um róteringar í bardaganum sem er á næsta leiti. Í stuttu máli sýnir hann íþróttamannslega hegðun.

Gunnar hefur yfirleitt (ef ekki alltaf) sýnt andstæðingum sínum virðingu. Hann er ekki þekktur fyrir “trash-talk” þótt hann einblíni á sigur. Hann viðurkennir styrkleika andstæðingsins án þess að missa ekki trúna á sig sjálfan. Í viðtalinu hér að neðan sýnir hann einnig „fjölskylduhliðina“ sína þegar hann ræðir um son sinn sem er farinn að hlaupa um.

Inni á milli glittir svo í brakþurran, íslenskan húmor, sem gefur gefur til kynna að Gunnar tekur sjálfan sig ekki of hátíðlega.

Þótt blandaðar bardagaíþróttir tengjast retórík ekki neitt, þá er margt í fari Gunnars sem stjórnmálamenn – og við öll – getum lært af.

1 […]the attitude toward a source of communication held at a given time by a receiver 2
2. McCroskey, James C.: An Introduction to Rhetorical Communication. S.67. 3. udg. Prentice-Hall Inc., 1978.
3. Jørgensen, Charlotte & Merete Onsberg (2008): Praktisk argumentation, s.71. 3. udgave. Nyt Teknisk Forlag.

 


Fáðu greinarnar beint í pósthólfið!

Skráðu þig núna og fáðu Retórík sent beint í pósthólfið þitt

Við lofum að spamma þig ekki og gefum aldrei netfangið þitt áfram. Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.