Hver á að svara listmálurum?

Bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum finnst Tolli ekki svaraverður, því hann er listmálari. Er ljótt að ætlast til að bæjarstjóri svari spurningum blaðamanns eða er ljótara að niðurlægja listmálara?
Hver á að svara listmálurum?

Í byrjun ágúst náði umræðan um kynferðisafbrot á Þjóðhátíð sögulegu hámarki. Ástæðan var ákvörðun lögreglustjóra, að senda bréf til viðbragðsaðila um að þeir mættu ekki gefa neinar upplýsingar um þessi mál. Sumir kölluðu það þöggun, aðrir sögðu hana vera að hugsa um hagsmuni þolenda.

Í framhaldi af því skrifaði listmálarinn Tolli uppfærslu á Facebook um að leggja ætti Þjóðhátíð niður. Blaðamaður Vísis greip ummælin á lofti og bar undir Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyja. Elliði svaraði:

“Mér finnst svo ljótt að ganga svona fram eins og sumir gera og ætlast til þess að bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum tjái sig um orð listmálara […]”

Ósamhverfa í aðstæðum

Þegar hlutfall valds og/eða þekingar er ójafnt milli tveggja aðila í tilteknum samskiptaaðstæðum, er talað um ósamhverfu (e. asymmetry) Hér: Elliði hefur meira, vald sem bæjarstjóri Vestmannaeyja, en Tolli, sem er listmálari.

Þegar retórísk heilindi eru metin lítur maður m.a. til þess hvort ósamhverfa sé í samskiptaaðstæðunum eða ekki. Ef þau eru til staðar, t.d. þegar stjórnmálamenn eða fræðimenn tala til eða við fólk, sem hefur ekki sama vald eða sömu þekkingu, er þeim mun mikilvægara fyrir þann sem hefur meira vald/þekkingu að vera heill, heiðarlegur og falslaus en ella.

Dæmi um óheilindi eru: lygi (að sjálfsögðu!), það að leyna eða þegja yfir einhverju, og svo að afbaka/bjaga.

Afbakanir eða bjaganir „dansa oft á línunni“. Þess vegna er oft erfitt fyrir fólk að koma auga á þær, en almennt eru þær hagræðing á sannleikanum, t.d. hlutfalls einhvers eða mikilvægi einhvers. Þrjár algengustu gerðir bjaganna eru:

1) Ýkjur eða öfgar

2) Einföldun (t.d. þegar flóknu máli er stillt upp sem annaðhvort/eða, svart/hvítt.)

3) Að skipta einu út fyrir annað (d. udskiftning): t.d. í stað þess að færa rök fyrir sínu máli ræðst maður á hinn aðilann – að fara í manninn, ekki boltann (ad hominem).1

Hér sýnir bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum gott dæmi um ad hominem, þegar hann segir að spurningin sé ekki svaraverð, því ummælin komu upprunalega frá manni sem er listmálari, en ekki eitthvað annað. Hér er Tolli niðurlægður vegna starfs síns: hann er ekki svaraverður því hann er listmálari.

Það mundi styrkja mál bæjarstjórans að einblína á rökin fyrir því að ekki ætti að leggja Þjóðhátíð niður – og sýna velvild gagnvart þeim sem hann ræðir við (og talar til). Jafnvel þótt honum finnist listmálari ekki svaraverður.

Hann var nefnilega spurður af blaðamanni – ekki listmálara.

1 Sjá: Jørgensen, Charlotte (2000): ”Hvem bestemmer, hvad der er god retorik? Vurderingsinstanser i normativ retorik”. I: Rhetorica Scandinavica, nr. 15, s. 34-48.


Fáðu greinarnar beint í pósthólfið!

Skráðu þig núna og fáðu Retórík sent beint í pósthólfið þitt

Við lofum að spamma þig ekki og gefum aldrei netfangið þitt áfram. Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.