Hvaða sögu dreifir þú?

http://www.retorik.is/wp-content/uploads/2016/03/rapefugee.jpghttp://www.retorik.is/wp-content/uploads/2016/03/rapefugee.jpgHvaða sögu dreifir þú?

Vísir fjallaði í síðustu viku um nokkrar sögur af hælisleitendum á Arnarholti á Kjalarnesi, þ.á m. af hælisleitanda sem á að hafa áreitt tvo starfsmenn leikskólans á Kjalarnesi og af öðrum sem sagður er hafa nauðgað barni í sundlauginni. Áður en þú deilir, skrifar athugasemd eða lækar slíkar fréttir ættirðu að hafa þrennt í huga: Að frásagnarformið er eitt öflugasta sannfæringarverkfærið; að raunveruleikann má „sviðssetja“ með orðum; og að hroki þinn getur ýtt undir enn meiri ótta og hatur.

1. Frásagnarformið er eitt öflugasta sannfæringarverkfærið

Sögur eru eitt áhrifamesta retóríska verkfærið þegar þú vilt sannfæra einhvern um eitthvað. Stjórnmálamenn nota oft stuttar frásagnir til að magna upp áhrif þess sem þeir tala um. Sögur hafa þann eiginleika að þær skapa myndir í huga áheyrandans. Þessar myndir eru oft það sem situr eftir í fólki. Áheyrandinn upplifir tilfinningar eins og gleði, sorg eða hræðslu. Sögurnar verða þannig afgerandi þættir í röksemdarfærslu þess sem talar. Frásögnin býr einnig yfir þeim eiginleika að oft er erfitt, ef ekki ómögulegt, að draga upplifanir fólks í efa.

Til að sagan verði álitin lygasaga verður áheyrandinn að vera fullviss um – og geta sannað – að sagan sé ósönn. Jafnvel þó að sagan sé uppspuni býr spennan jafnan í þeim vafa sem umlykur söguna. Þetta á t.d. við um sögur af geimverum, álfum og huldufólki og eins um montsögur sem einhver segir af sjálfum sér. Ef ekki er hægt að færa sönnur á að sagan sé uppspuni frá rótum býr alltaf visst sannfæringargildi í henni.

Í janúar sagði t.d. ráðherra útlendingamála, Inger Støjberg (DK), sögu af leikskóla á Jótlandi. Á umræddum leikskóla var barni vinafólks hennar bannað að mæta með hamborgarahrygg í skólann. Leikskólinn bannaði svínakjöt vegna þess að börn múslima á leikskólanum voru orðin það mörg.

Þessi saga hljómar kunnuglega og mörgum þykir hún eflaust trúverðug, sérstaklega í ljósi þess að hún kemur frá sjálfum ráðherranum sem hefur hana eftir vinum sínum sem áttu að hafa upplifað þetta. Sannleikurinn er hins vegar sá að sagan er helber lygi. Støjberg taldi sig vera í það lokuðum hópi að hún gæti látið hvað sem var flakka. Svo illa vildi til að andstæðingur hennar í pólitík var nærstaddur og vissi að sagan var ósönn. Engar slíkar matarreglur eru til í leikskólum í þessu sveitarfélagi. Støjberg dró í land og sagðist ekki geta sannað að þetta hefði gerst.

Ef þessi eina kona, andstæðingur Støjberg, sú sem eyðilagði sögustundina, hefði ekki verið til staðar, hefði líkast til aldrei komiði í ljós að um var að ræða lygasögu. Sagan hefði flakkað bæja á milli og orðið enn eitt dæmi þess að múslimar eru að taka yfir Evrópu.

2. Raunveruleikann má „sviðssetja“ með orðum

Flest norma samfélagsins urðu til vegna þess að við bjuggum þau til með orðum. Franski heimspekingurinn Michel Foucault nefnir kynferði og kynlíf í þessu samhengi. Þó að þessi grein fjalli ekki um kynferðismál er ágætt að taka þau sem dæmi til að útskýra það sem á eftir kemur.

Kynferðismál hafa löngum verið tengd við blygð og skömm. Þó að við getum talað opinskátt um kynlíf í dag þá hefur það sannarlega ekki alltaf verið þannig. Í byrjun átjándu aldar tók umræða um kynferðismál að aukast. Hún var þó ekki jafn opinská sú umræða sem við þekkjum í dag heldur snerist hún um að tala um kynferði á vissan hátt – um „rétt“ kynlíf. Kynlíf átti að fara fram á milli konu og karls sem voru gift. Sjálfsfróun var álitin synd. Allar líkamlegar hvatir átti að bæla niður, o.s.frv., o.s.frv.

Það sem er áhugavert hér eru ekki kynferðismálin sem slík heldur hvernig samfélagið, og sér í lagi vissar stofnanir innan samfélagsins, talar um þessi mál. Að talað sé um þau yfirhöfuð er út af fyrir sig merkilegt, en einnig má skoða hver talar um þau, hvaða stofnanir safna gögnum og breiða út boðskap um þau, hvernig talað er um þau og þá frá hvaða sjónarmiðum, í gegnum hvaða miðla og á hvaða tíma.

Foucault notaði hugtakið „la mise en discours“. Á dönsku hefur það verið þýtt sem „italesættelse“. Hugtakið er náskylt sviðssetningu (d. iscenesættelse), þ.e. hvernig tiltekið mál er byggt upp í orðræðu. Ef sjálfsfróun – og afsakaðu ef það særir blygðunarkennd þína – er tekin sem dæmi, þá taldist hún var „synd“ vegna þess að þannig töluðu t.d. prestar, kennarar og jafnvel læknar um sjálfsfróun. Ekki vegna þess að sjálfsfróun hefur alltaf verið talin til synda heldur vegna þess að í áratuga og jafnvel árhundruða rás hefur samfélagið byggt upp tiltekna orðræðu í kringum málefnið; þ.e. sett það á svið með orðum. Þessi „orðsetning“ verður svo að viðteknum hugmyndum.

Hér er mikilvægt að leggja áherslu á sjónarmið. Ekki ætti að skilja orðið sem skoðun eða viðhorf heldur vísar það til þess úr hvaða átt tiltekið mál er skoðað, þ.e. af hvaða sjónarhóli. Hér að neðan er mynd af listaverki sem breytist eftir því hvar maður stendur. Flestir þekkja slíkar myndir. Það virkar kannski augljóst að setja fram slíkasamlíkingu, en hún þjónar ákveðnum tilgangi.

louisiana

Þegar maður horfir á myndina að framanverðu sér maður fjórar bláar, samfelldar línur. Ef maður gengur til hliðar virðast línurnar brotna.

Ef nógu margir tala um myndina sem fjórar beinar, bláar línur í nógu langan tíma fer samfélagið að samþykkja að myndin sé nákvæmlega eins og henni er lýst. Sú „orðsetning“ sem er ríkjandi skapar normið. En það þýðir ekki að hún lýsi raunveruleikanum. Hún lýsir einungis þeim raunveruleika sem sést út frá því sjónarmiði sem við veljum.

Bestu dæmin eru kannski þau sem við myndum hlæja að í dag. T.a.m.ungaisland þessi grein úr barnablaði frá 1905. Þar er talað um „svarta menn“ sem búa í Afríku. „Þeir eru flestir hjátrúarfullir og grimmir,“ og „lifa eins og dýrin hér og þar úti á víðavangi“. Flestum þykir þessi lýsing fyndin vegna þess að hún er skrifuð af algjörri fávísi. Orðalagið hjálpar einnig til. En þetta taldist vera venjulegt viðhorf á sínum tíma. Svo venjulegt að það var skrifað í barnablað. Þessi lýsing var sönn samkvæmt þeim hugmyndum sem Íslendingar höfðu um fólk frá Afríku, því sjónarhorni, en lýsti ekki endilega því hvernig fólk frá Afríku (þeirri stóru heimsálfu!) er. „Orðsetningin“ verður til þegar menn á borð við ritstjóra barnablaðsins skrifa grein í þessum anda og dreifa henni til barna.

Þegar Vísir velur að birta frétt af þeim sögum sem fara af hælisleitendum á Kjalarnesi dreifir miðillinn upplýsingum sem eru að mestu leyti byggðar á frásögn. Jafnvel þó að blaðamaðurinn skrifi að lögreglan kannist ekki við máliner þessum sögum gefið vægi þegar skrifað er um þær í einn stærsta fjölmiðil landsins. Stundin fjallaði einnig um málið en höfuðáhersla þeirrar fréttar var þó á kæru vegna hatursumræðu. Vísir nefnir þó hvergi þessa kæru eða hatursumræðu. Óttinn við hælisleitendurnar verður því aðalleikarinn í þessari „sviðssetningu“.

Þegar þú lækar, deilir eða skrifar athugasemd við þessa frétt þá dreifirðu henni áfram til annarra. Og hér verður viss árekstur. Fjölmiðlar eru mögulega ekki á þeim buxunum að fara í einhverja naflaskoðun. Nú berjast þeir fyrir sjálfstæði, bæði faglegu og fjárhagslegu. Þess vegna telst hver deiling, hvert læk og hvert klikk bera vott um árangur.

Það verður mögulega fyrst þegar samfélagið vaknar eftir vondan draum að við áttum okkur á því að það eina sem sagan hefur kennt okkur er að við lærum aldrei af sögunni. Þá fyrst munu fjölmiðlar átta sig á þeirri ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra – ábyrgð sem þeir vilja oft hvorki viðurkenna né axla. Nú hefur þú hins vegar möguleika á að ákveða hvaða fréttum er deilt – hvaða fréttir fá vægi. Muntu axla þá ábyrgð?

3. Órökréttur ótti er raunverulegur ótti

Þriðja og síðasta atriðið, sem er mikilvægt að vera meðvituð/aður um, er að ótti annarra er ekki endilega hatur. Þegar „góða fólkið“ les fréttir um „hrædda fólkið“ (og nú ættirðu að átta þig á að hér er alið á neikvæðri „orðsetningu“) er auðvelt að vera hrokafullur og draga jafnvel upp nasistaspjaldið.

Þegar maður les:

„Þetta eru hælisleitendur sem koma hingað á fölskum forsendum. Eru með fölsk vegabréf og gefa ekki upp uppruna sinn. Vinkona mín er lögfræðingur og hún segir að hún myndi ekki hleypa börnunum sínum út að leika í svona ástandi. Það segir allt sem segja þarf,“

er auðvelt fyrir „góða“ fólkið að hugsa: „Það að fólk noti fölsk vegabréf til að koma sér frá aðstæðum sem enginn Íslendingur mundi sætta sig við þýðir ekki að börnin þín séu í hættu.“ Nú eða: „Ég þekki líka lögfræðing. Flest allt sem hann segir er della.“

Þegar maður les:

„Þetta er sjokk fyrir bæinn og með hækkandi sól koma þeir inn í hverfið,“

er auðvelt fyrir „lærða“ fólkið að hugsa: „,Þeir’ eru ekki uppvakningar eða vampírur sem koma eins og árstíðarbundin flensa inn í hverfið til að meiða börnin þín. ,Þeir’ sakna barnanna sinna, foreldra og eiginkvenna. ,Þá’ vantar þína hjálp til að takast á við skammdegið, sem sýgur lífsorkuna úr hörðustu víkingum, til að takast á við heimþrána og ekki síst rokið í þessu krummaskuði.“

Þegar maður les:

“Það er óþægilegt að sjá stráka um tvítugt til fertugs gangandi um hér í hópum,“

er auðvelt fyrir „múltíkúltí“-fólkið að hugsa: „Ef það kemur þér á óvart að brúnt fólk er líka félagsverur, þá ætti að taka af þér kosningaréttinn.“

En allt þetta ber vott um hroka. Óttinn sem fólk upplifir, sama hversu órökréttur hann er, er raunverulegur. Eins og þegar lítil börn hræðast skrímslið undir rúminu – nú eða Grýlu, án þess að hér sé verið að líkja fullorðnu fólki við börn. En óttinn er sá sami og hann er raunverulegur. Hann sest að í líkamann og veldur kvíða og angist. Og ef það eina sem hrædda fólkið, sem þorir ekki að hleypa börnunum sínum eitt út að leika, mætir er hroki og skilningsleysi má ekki búast við að það reyni sjálft að mæta nýjum íbúum með kærleik, skilning og hjálpsemi.

Hroki lærða fólksins, hroki góða fólksins og hroki stórborgarliðsins er ein af ástæðum þess að þjóðernisflokkar eru á uppleið í Evrópu. Og að Trump gæti mögulega orðið forseti Bandaríkjanna. Við upplifum hóp fólks sem hefur þungar og réttmætar áhyggjur af þróun samfélagsins. Ef við hlustum ekki á þær áhyggjur og mætum samborgurum okkar með hroka í stað umræðu og rökfærslu, þá munum við hugsanlega uppskera stjórnvöld svipuð þeim sem voru við völd í fasískum ríkjum Evrópu í byrjun tuttugustu aldar. Lýðræðið er stundum sjálfu sér verst.

Þegar öllu er á botninn hvolft hefurðu meiri áhrif en þig grunar, þökk sé Facebook, Instagram og Twitter. Það sem þú skrifar og hverju þú deilir getur orðið til þess að nágranni þinn sér litlum, hjálparvana dreng skola á land við strendur Grikklands og ákveður í kjölfarið að leggja sitt á vogarskálarnar með fjárframlagi. Þú getur einnig séð til þess að nágranni þinn sjái lítinn nauðgara sem ræðst inn í landið þitt: rapefugee.

Hvaða sögu dreifir þú?

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.