Hvað er Retórík?

Við eigum því miður ekkert gott, alíslenskt orð yfir retórík. Ræðulist, mælskufræði og jafnvel málskrúðsfræði eru orð sem orðabókin gefur, en ekkert af þeim nær almennilega yfir hugtakið retórík. Í stuttu máli er retórík samskipti þar sem markmiðið stýrir því hvernig við tölum eða skrifum.

hvað er retórík

 

Einfalt en ágætt dæmi er t.d. þegar við sitjum við eldhúsið borðið og spyrjum: „geturðu teygt þig í saltið?“ Hér er spurningin, í bókstaflegri merkingu, hvort viðkomandi geti teygt sig í saltið. Ef viðkomandi teygir sig í átt að saltinu og lætur þar við numið, hefur viðkomandi líklega ekki skilið hvað þú átt við (eða gerir heiðarlega tilraun til fyndni). Undirliggjandi er bón um að fá saltið. Það er þitt markmið – að fá saltið.

Annað markmið gæti verið að fá einhvern til að loka glugganum. Annað hvort biðurðu viðkomandi beint eða þú gætir tekið utan um axlirnar þínar og sagt „*brrr* er ekki svolítið kalt hérna“? Ef viðkomandi er sammála þér eða vill gera þér þann greiða að loka glugganum, mun hann/hún líklega skilja beiðnina og loka glugganum. Ef ekki, hefði líklegast verið betra að biðja viðkomandi beint, að vinsamlegast loka glugganum.

Þetta eru einföld og hversdagsleg dæmi um það hvernig við notum tungumálið til að ná ákveðnum markmiðum. Það sama gera lögmenn þegar þeir vilja fá einhvern dæmdan eða sýknaðan. Þeir reyna, út frá lagabókstaf (en með retórík), að sannfæra dómarana um að skjólstæðingur þeirra verði dæmdur eða sýknaður. Markmið sölumanna er að selja þér ákveðna vöru. Í stjórnmálum er það sama uppi á teningnum. Stjórnmálamenn reyna að sannfæra borgarana um að ákveðin leið er sú besta í tilteknu máli.

Og hér flækjast málin. Hvort viðkomandi takist að sannfæra mig veltur á mörgum þáttum, t.d. tímasetningu, rökum sem hann/hún notar og í gegnum hvaða miðil. Og ekki síst hver viðkomandi er. Er um stjórnmálamann eða verkamann að ræða? Lögfræðing eða lektor eða listamann? Og þótt við gætum verið treg til að viðurkenna það, þá skiptir máli hvernig viðkomandi er til fara – jafnvel hvað einstaklingurinn heitir.

Til að finna út úr því hvernig við náum markmiðunum verðum við að gera okkur grein fyrir við hverja við tölum – og út frá því ákveða hvernig við nálgumst þessi (og fleiri) atriði.

Aristóteles talaði um tvennskonar „sönnunaraðferðir,“ (e. appeals, gr. pisteis) sem ræðumaður hefur til umráða. Þær fyrri eru ekki „faglærðar,“ (pistis atechnoi) t.d. skjöl, vitnisburður o.s.frv. Þær liggja ekki hjá ræðumanni sjálfum. Hinar sönnunaraðferðirnar liggja hjá ræðumann sjálfum og geta kallast „faglærðar“ (pistis entechnoi). Aristóteles greindi á milli þriggja gerða faglærðra sönnunaraðferða: ethos, logos og pathos.

Sönnunaraðferðirnar eru tæki til að hjálpa ræðumanni að ná markmiði sínu. Aristóteles flokkaði einnig ræður í þrjá meginflokka: sú sem snýst um stjórnmál (delíberatív), dómsmál (forensísk) og sú sem snýst um að hrósa eða gagnrýna einstakling (epideiktísk) – einnig þekkt sem tækifærisræða. Ræða stjórnmálamannsins snýst um hvað á að gera í framtíðinni, ræða lögmannsins um það sem gerðist í fortíðinni og tækifærisræðan er bundin nútíð, skv. Aristóteles. 1

Ethos má kalla trúðverðuglega og jafnvel orðstýr. McCroskey skilgreindi ethos sem „viðmót viðtakanda gagnvart þeim sem talar eða skrifar.“ 2 Þótt ræðumaður getur haft áhrif á þetta viðmót, t.d. með framkomu, þá er ethos alltaf huglægt mat viðtakanda.

Logos tengist, eins og orðið gefur til kynna, lógík eða rökum. Eru rökin sannfærandi og viðeigandi

Pathos höfðar svo til tilfinninga okkar. Það getur verið allt frá hræðslu til vonar, hryllings til ánægju o.s.frv.

Þá spyrja margir: ef þú nærð markmiði þínu, er það þá til marks um góða retórík?

Svo einfalt er það ekki. Það fer auðvitað eftir því hvaða viðmiðun við notum (e. criteria). Á Norðurlöndunum tala retóríkfræðingar oft fyrir normatívri retórík. Þ.e.a.s. að líta ber á ummæli í stærra samhengi – við hvaða aðstæður ummælin falla og hvernig þau virka. Út frá því, og öðrum viðmiðum, metum við hvort að ummælin séu góð eða léleg.3

Um retórík hafa verið skrifaðar margar bækur og greinar. Fagið er stórt, þótt það þekkist ekki á Íslandi. Þessi grein er því einungis stutt kynning á viðfangsefnum retóríkur. Retóríkfræðingar vinna ýmis störf innan pólitíkur, auglýsingagerðar, PR og margt fleira.

1. Aristóteles. Retórík. A. II 1-10
2. McCroskey, James C.: An Introduction to Rhetorical Communication. S.67. 3. udg. Prentice-Hall Inc., 1978.
3. Kock, Christian. 1997. „Retorikkens identitet“. Rhetorica Scandinavica nr. 1. Retorikforlaget.