Góðærið vaknar: áramótaávarp forsætisráðherra

Áramótakveðjur forsætisráðherra skilja eftir fleiri spurningar en svör. Hverjir hafa kvartað? Lítur hann á hjúkrunarfræðinga sem nátttröll? Sigmundi tekst líklega ekki að ná til og sameina þjóðina í ávarpi sínu. En núna er á hann á snappinu.
Góðærið vaknar: áramótaávarp forsætisráðherra

Við lok ársins er siður að þjóðarleiðtogar (forsætisráðherra/kanslari) ávarpi þjóð sína. Ræðurnar eru oft frábrugnar ræðum þjóðhöfðingjans (t.d. forseta eða konungs/drottningar) að því leiti til að ræður þjóðhöfðingja eru oftar byggðar á ópólitískum samfélagsmálum á meðan ræða forsætisráðherra eru gjarnan pólitískar. Þó eiga þessi ávörp það sameiginlegt að ræðumaðurinn reynir að sameina þjóð sína. Hvað það er sem getur sameinað þjóðina er mismunandi og eru alltaf eru einhverjir sem ávarpið nær ekki til. Atburðir liðins árs er yfirleitt það sem leiðtoginn byggir ræðu sína á. Það getur t.d. verið stríð, hamfarir eða sigrar. Liðið ár skapar retórískar aðstæður retórs (þess sem skrifar/heldur ræðu)

Hvað eru retórískar aðstæður?

Til að byrja með er rétt að nefna skilgreiningu Bitzer á retórískum aðstæðum. Fyrst einfalt dæmi: Ímyndaðu þér að þú sitjir við matarborðið og maturinn er hálfbragðlaus. Þig vantar salt. Hér vantar eitthvað. Vinur þinn situr hinum meginn við borðið og saltið er við hlið hans. Hér geturðu leyst vandamálið með retórík. Þú biður vin þinn að rétta þér saltið. Málið er leyst.

Það, að þig vantaði saltið, kallar Bitzer exigence; hindrun/aðkallandi vandamál/neyðarástand (þótt það væri ansi djúpt í árinni tekið að kalla þessar aðstæður neyðarástand). Það, að þú baðst um saltið, kallar hann svo viðeigandi svörun (fitting response). Þú leystir vandamálið með retórík.

Annað og aðeins flóknara dæmi væri ef Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa á ný og syðri hlutar Rangárvallarsýslu og Vestur-Skaftafellssýslu væru í bráðri hættu. Ekki er hægt að stöðva eldgosið með retórík. Hins vegar er hægt að reyna að rýma svæðið og er það yfirleitt hægt með retórík (að segja fólki að yfirgefa heimili sín). Hins vegar skiptir máli hver gerir það. Ef þorpsfíflið færi út og gólaði „Eldgos!“ myndu fáir taka mark á honum. Ef Almannavarnir og bæjarstjórar gæfu út tilkynningu myndi það mögulega ganga örlítið betur. Hér skiptir máli hver þú ert (eða þið). Réttur aðili getur leyst þetta vandamál, exigence, með réttum orðum, fitting response. Retór hefur svo mismunandi verkfæri til að gefa þessa viðeigandi svörun.

Retórískar aðstæður forsætisráðherra

Þegar forsætisráðherra ávarpar þjóðina á gamlársdag er það ekki hans hlutverk að lesa upp fréttaannál. Hins vegar skiptir máli fyrir ræðumann að taka tillit til þess hvað hefur gengið á í þjóðfélaginu – hvað skóp árið og þar með retórískar aðstæður hans.

Þegar litið er á fréttir ársins þá fór mikið fyrir kjarabaráttunni. Félagsmenn ýmissa félaga fóru í verkfall – eða verkfalli var afstýrt á síðustu stundu. Háskólamenn, iðnaðarmenn, lögreglumenn. 88% hjúkrunarfræðinga höfnuðu kjarasamningi. Alþingi setti á þau lög um verkfallsbann.

Árið 2015 bauð einnig upp á ýmsar aðgerðir til vitundarvakningar um kynferðisafbrot. #freethenipple var nokkuð umdeilt en Druslugangan naut stuðnings fjölmargra. Ríflega 20.000 manns gengu í göngunni. Mikil umræða var um löggjöfina, refsingar og réttarfar í sambandi við kynferðisafbrot. Sigmundur Davíð var þar að auki á blaði sem einn af merkustu karlfemínistum heims.

Þriðja stóra málið var svo að sjálfsögðu flóttamannastraumurinn til Evrópu og borgarastyrjöldin í Sýrlandi.

Öll þessi atriði settu sterkan svip á árið sem leið og hefði það verið tilvalið – jafnvel sjálfsagt – að ráðherrann minntist á þessi mál, enda snerta þau stóran hluta þjóðarinnar. Sér í lagi í ljósi þess að hann valdi að hundsa þá mótmælendur sem börðu bumbur við ræðuhöld hans á 17. júní; í ljósi þess að traust almennings til alþingis er undir 20%; í ljósi þess að álit almennings á ráðherranum er ekki mikið, skv. könnun MMR.

Hverju var forsætisráðherra að svara?

Ekkert af þessum málum bar á góma í ávarpinu. En hverju svaraði þá ráðherrann? Ef markmið hans – eins og gera má ráð fyrir í áramótaávarpi – var að sameina þjóðina (eða hluta hennar), til hverra reyndi hann þá að höfða? Lítum á ræðuna hans.

Hann byrjar ávarpið á að ræða um veðrið og lofar þeim sem búa fyrir austan að stjórnvöld aðstoði þau. Þar næst hrósar hann og þakkar björgunarsveitunum. Nefnir að nú séu áramót og gott sé að líta til baka og að við hugsum til þeirra sem eiga við sárt að binda. Gott og vel – klassísk atriði áramótaávarps.

Svo nefnir hann framfarir og árangur og velgengni. Hann nefnir framfarir og árangur og velgengni það oft, að endurtekningin fékk ákveðinn sefjandi blæ. Orðið árangur sagði hann 15 sinnum, framfarir fimm sinnum, velgengni (gengur vel/í hag) sex sinnum. Á rúmum ellefu mínútum. Kaupmáttur og kjarabætur voru á sínum stað. Og orðið góðæri var þar líka.

Að sjálfsögðu var það líka nefnt að Ísland er einstakt. Yfirleitt eru grafnar upp einhverjar tölur sem sýna Ísland sem “hlutfallslega besta land í heimi” og “frábærast miðað við höfðatölu” en í þetta sinn hafði ráðherrann fundið eitthvað nýtt – eitthvað alveg einstakt; haftalosunina.

„Þessi staða þjóðarbúsins verður þá orðin sú besta í hálfa öld. Það er ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma og að mati erlendra fjölmiðla sem skrifað hafa um haftalosunina, algjörlega einstakt.“

En það er próf framundan. Ef þjóðin á að halda áfram að vera einstök í augum erlendra fréttamiðla sem skrifa um haftalosunina er mikilvægt að hafa eftirfarandi í huga:

„Á nýju ári ræðst hvort okkur auðnast að byggja áfram upp á grunni þess árangurs sem þegar hefur náðst. Til þess að svo megi verða munum við þurfa samstöðu um að halda áfram á þeirri braut sem hefur reynst okkur svo vel.“

Breytingar munu s.s. ekki hafa heillavænlegar afleiðingar. En Íslendingar geta haldið í þessa ímynd, sem þeir svo sannarlega eiga skilið. Íslendingar hafa lifað af válynd veður í gegnum aldir:

„Okkur Íslendingum hefur í gegnum tíðina líkað ágætlega við þá ímynd sem þjóðin hefur áunnið sér. Við höfum verið þekkt fyrir dugnað, þrautseigju og þolgæði. Íslendingar hafa verið taldir úrræðagóðir á raunastund, yfirvegaðir og færir um að bera harm sinn í hljóði og gefast aldrei upp. Þessi ímynd varð áreiðanlega ekki til af ástæðulausu enda er ótrúlegt hvaða árangri Íslendingar hafa náð í þessu landi við erfiðar aðstæður um aldir.“

Hommar, hippar og dópistar Nixons eru nátttröll Sigmundar

Hins vegar slær Sigmundur varnagla við þessu öllu saman:

“En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?”

Síðar í greininni slær hann á svipaðan streng:

„Látum engan telja okkur trú um að ísland sé vonlaust og hér þurfi að snúa öllu á hvolf. Edmund Burke, sem ég vísaði til áðan, benti á að það væri algeng villa að ímynda sér að þeir sem kvarta hæst í nafni almennings séu þeir sem láta sig hag almennings mestu varða.“

Hér er rétt að staldra aðeins við og líta á áramótagreinina sem Sigmundur skrifaði í Morgunblaðið sama dag. Þar nefnir hann hinn þögla meirihluta:

„Við þurfum, sem samfélag að komast úr skugga neikvæðni og niðurrifs í öllum sínum myndum. Við þurfum að læra að meta þau gæði sem við búum við og þann árangur sem við höfum náð og láta það verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Þeir sem stundum eru kallaðir hinn þögli meirihluti verða að þora að láta ljós sitt skína og óttast ekki hramm nátttröllanna. Þau þrífast bara í myrkri. Upplýsta umræðu þola þau ekki.“

Fyrir þá sem ekki þekkja hinn þögla meirihluta, er rétt að rifja aðeins upp. Hugtakið kemur frá Nixon bandaríkjaforseta, en hann kallaði eftir hjálp – rétt eins og Sigmundur – frá ‘hinum þögla meirihluta’ á tímum Víetnamstríðsins. Hinn þögli meirihluti eru þeir sem aðhyllast ‘grundvallarhugmyndir lýðræðisins’ – hið rétta lýðræði; kosningar á fjögurra ára fresti. Hinir háværu eru þeir fáu sem skemma.

Þannig voru mótmælendur (andófsmenn), sem margir hverjir voru í San Francisco, höfuðborg blómabarnanna, tengdir við hippa, dópista og homma (sem voru fúkyrði á þeim tíma). Og Nixon talaði í þessari ræðu einnig um ímynd, rétt eins og Sigmundur:

„Because let us understand: North Vietnam cannot defeat or humiliate the United States. Only Arnericans can do that.“

Sigmundur gengur ekki svo langt að kalla „þá sem kvarta“ andófsmenn, en eigi að síður er hópur fólks sem vill „snúa öllu á hvolf“ – hópur landsmanna sem vill skemma landið með yfirgangi og frekju.

Sigmundur talar til fámenns hóps fólks

En Sigmundur skilgreinir aldrei nánar hverjir þessir „kvartarar“ eru. Í ljósi þess sem árið 2015 bauð upp á í íslensku samfélagi er ekki hægt að sjá að þægi hópurinn sem ekki „kvartar“, hinn þögli meiri hluti, sé sérlega stór. Ef það eru hjúkrunarfræðingar sem „kvarta hæst“ eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn, eða jafnvel lögreglan eða háskólamenn, svo ekki sé minnst á iðnaðarmenn eða öryrkja, fórnarlömb kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra eða þá sem vilja auka ábyrgð Íslands gagnvart flóttamönnum, þá er hinn þögli meirihluti orðinn ansi horaður hópur. Hann er mögulega minnihluta meirihluti.

En ef þeir sem „kvarta hæst“ ná völdum mun slíkt „enda illa“:

„Þegar gengur vel, mjög vel, gefast menn ekki upp og segja að fyrst ekki sé búið að ná fullkomnun sé betra að gera enn eina tilraun með einhverja hugmyndafræði sem lofar fullkomnu samfélagi. Slíkt hefur alltaf endað illa.“

Þess vegna ætti fólk ekki að „kvarta“.

Gunnlaugsson vs. Merkel

Þar sem forsætisráðherrann er svo gjarn á að bera Ísland saman við önnur lönd, er tilvalið að bera saman ræðu hans og kanslara Þýskalands sama dag. Hennar ræða snerist fyrst og fremst um það sem hún hefur verið gagnrýnd hvað mest fyrir; að taka á móti (of mörgum) flóttamönnum.

Merkel byrjar ávarpið á að þakka öllu því fólki sem hefur unnið gott starf og notar fyrsta þriðjung ávarpsins í það. Þar næst víkur hún að máli málanna: flóttamönnum. Hún minnir á að Þýskaland muni ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem hvílir á herðum Evrópubúa en minnir um leið á það að flóttamenn muni auka vöxt og hagsæld landsins – ekki öfugt. En að Þjóðverjar verði að muna eftir náungakærleikanum og minnir á að í Þýskalandi gilda sömu lög fyrir alla.

En það, að Merkel tali um það sem hún er gagnrýnd mest fyrir, er ekki það eina sem aðskilur hana og Sigmund. Í seinni hluta ræðunnar segir hún: „Það er mikilvægt fyrir okkur að hlusta alltaf á rök annarra, jafnvel þótt þeir vegi og meti áhyggjuefni og tækifæri öðruvísi en við sjálf.“

Hún hvetur til að fólk hlusti hvert á annað. Sigmundur hvetur til þess að fólk hætti að kvarta – eða í það minnsta að hinn þögli meirihluti yfirgnæfi þá sem kvarta.

Merkel stendur sína plikt. Hún stendur og fellur með þeim ákvörðunum sem hún tekur og er tilbúin til að ræða þau mál. Hún þarf ekki að hundsa þau – hún veitir viðeigandi ávarp við því sem gengið hefur á í hennar landi á liðnu ári og reynir ekki að fegra sjálfa sig með því að sverta óskilgreindan hóp.

Sigmundur talar ekki til þjóðarinnar. Hann talar helst til þeirra sem eitt sinn studdu ríkisstjórnarflokkana en hafa nú gefið til kynna að þeir kjósi eitthvað annað í næstu kosningum. Þær eru eftir u.þ.b. 16 mánuði. Ráðherrann er rétt að hita upp. Og nú er hann kominn á snappið.

Ávarp ráðherra er ekki til þess fallið að sameina Íslendinga. Það virkar frekar sem ávarp til þeirra sem eru óákveðnir og fylgjast lítið með stjórnmálum – til að þá sem hugsa sér að kjósa eitthvað annað en þá sem sitja í ríkisstjórn í dag. Því núna gengur vel og ef hlutunum er breytt of mikið, þá mun það enda illa.


Fáðu greinarnar beint í pósthólfið!

Skráðu þig núna og fáðu Retórík sent beint í pósthólfið þitt

Við lofum að spamma þig ekki og gefum aldrei netfangið þitt áfram. Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

Bitzer, Lloyd F. “The Rhetorical Situation”,  Philosophy and Rhetoric Vol 1, nr. 1, 1968, Pennsylvania University Press.

Campbell, Karlyn Kohrs: ”The Rhetoric of Mythical America Revisited”, í Critical Questions: Invention, Creativity, and the Criticism of Discourse and Media. William Nothstine, o.fl. (red.),St. Martin’s, 1994.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.