Erum við betur sett ef við losnum við Vigdísi?

Kvennablaðið hafði samband og spurði hvort þau mættu birta greinina „Enginn má fara í manninn, nema Vigdís,“ sem þau vissulega máttu. Ýmsir hafa skrifað og spurt af hverju það megi ekki segja Vigdísi að finna sér nýja vinnu eða að hún sé vitlaus, þegar hún ítrekað „segir allskonar bull“. Einn skrifaði t.a.m. þessa athugasemd á FB síðu Kvennablaðsins:
Erum við betur sett ef við losnum við Vigdísi?

Hér er mitt svar:

Sæll!

Mikið skil ég þig vel. Og ég held að margir deili þessari tilfinningu; að vilja losna við einhvern ákveðinn einstakling úr stjórnmálum. Það gæti t.d. verið vegna þess að viðkomandi stjórnmálamaður hefur skoðanir sem ekki hugnast okkur eða vegna þess að hann/hún er léleg(ur) í að rökræða. Eða hvort tveggja. Það er auðvitað algjörlega óþolandi að ætla að hlusta á rökræður um t.d. ESB og það sem stendur upp úr er að Malta er allt í einu ekki land og er líkt saman við Vestmannaeyjar. Við hlustum á rökræður til að verða upplýstari. Í sumum tilfellum verður maður það ekki. Þar bregðast stjórnmálamenn hlutverki sínu; að lýsa hvert mál frá öllum hliðum svo borgararnir geti tekið upplýsta ákvörðun.

Hins vegar held ég að vandamálið liggi mun dýpra í þjóðfélaginu en svo, að það muni hafa einhver áhrif að losa sig við einstaka þingmenn. Svipaðar týpur munu skjóta aftur upp kollinum á Alþingi.

Hvað er þá til ráða?

Það fer algjörlega eftir því hvað við viljum. Ef við viljum góða, málefnalega og upplýsandi umræðu, þá hugsa ég að vandamálið liggi ekki hjá einstaka þingmönnum heldur hjá okkur öllum. Þingmenn eru ekki öðruvísi en þú og ég – sem hefur sína kosti en líka sínar áskoranir. Allir geta farið á þing. Það eina sem þú þarft að gera er að sannfæra aðra um að kjósa þig. Og sumir eru góðir í því sannfæra aðra.

Ef við höfum áhuga á að þingmenn rökræði málefnalega og skynsamlega – bulli ekki um að fólk verði skrítið af kjöti í útlöndum o.s.frv. – þá verða allir þingmenn að læra að rökræða og vinna sína vinnu með því hugarfari, að þeir þjóni borgurunum en ekki sínum eigin flokki eða pólitíska frama. Og þá er auðvelt (og kannski réttlátt) að benda á þá, en ekki okkur. En þá aftur að því hverjir eru þingmenn: allir geta orðið þingmenn.

Í mínum huga liggur rót vandans í þeirri umræðuhefð sem við höfum skapað í gegnum áratugi; skotgrafarpólitík, hægri/vinstri hugsun og „að jarða andstæðinginn“. Þessi hefð snýst um að komast til valda og að halda völdum. Sú hefð nær aldrei lengra en akkúrat það: að komast til valda til að framkvæma hluti út frá ákveðinni hugmyndafræði (sósíalisma, kapítalisma o.s.frv.). Viljum við skerpa lýðræðið, þá verðum við að setjast niður, ræða málin og beita rökum. Ekki persónuárásum. Ekki gera öðrum upp annarlega hvatir. Ekki reyna að komast hjá því að svara spurningum.

Ég er sjaldan sammála Vigdísi Hauksdóttur og mér finnst það algjörlega ótækt hvernig hún oft ræðir málin og setur sig svo í fórnarlambastellingar. En ég er viss um að ef hún fer aftur í blómaskreytingar, þá fáum við annan þingmann sem gerir það nákvæmlega sama. Þess vegna held ég að það sé betra, til lengri tíma litið, að breyta umræðuhefðinni. Kenna henni að rökræða á góðan hátt. Kenna öllum að rökræður er mikilvægur hluti af lýðræðinu.

Þess vegna er ég á þeirri skoðun að það sé ekki rétt að segja Vigdísi að fara aftur í blómaskreytingar. En það fer auðvitað eftir því hvort við viljum fallega borðskreytingu eða öflugt lýðræði í framtíðinni.

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.