Enginn má fara í manninn, nema Vigdís

Enginn má fara í manninn, nema Vigdís

Kæra Vigdís

Í erindi þínu í gærkvöldi sagðir þú m.a. að netið hafi vissulega hafa fært fólki frelsi, en það frelsi þyrfti að um­gang­ast af mik­illi ábyrgð.

Hve satt!

Orðum fylgir mikil ábyrgð. Allar persónuárásir, svo ekki sé talað um ofbeldis- og líflátshótanir, eiga ekki rétt á sér.

Einmitt þess vegna langar mig að ræða við þig þrjú atriði, sem þú nefndir í erindi þínu.

Það fyrsta er hvernig þú notar Facebook. Í erindi þínu segir þú: „Fjöl­miðlar eru komn­ir þarna út á hálan ís þegar status­ar á Face­book eru orðnir aðal­upp­spretta frétta.“

Þessi fullyrðing er bæði sönn og ósönn. Ef fréttirnar væru myndbirting af þér á bikini á Costa del Sol, þar sem fjallað væri um vaxtarlag þitt, væru fjölmiðlar komnir á verulega hálan ís, það er satt. En ef þú, sem þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga, nýtir þér Facebook sem þitt málgagn með því að tjá þig um mál líðandi stundar, t.d. um Isavia, þá eru Facebookfærslur ígildi smágreina eða örblogga. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að fjölmiðlar vitni í þín skrif á Facebook. Þess vegna skaltu passa hvað þú skrifar á Facebook.

Atriði númer tvö, sem mig langar að ræða um við þig, er einmitt status sem þú skrifaðir á Facebook. Og það, að við þurfum að umgangast internetið af mikilli ábyrgð. Og persónuárásir.

Í stöðuuppfærslu þinni um miðjan ágúst kallar þú aðra konu viðrini. Þegar þú gagnrýnir aðra fyrir að kalla þig heimska og að þú eigir að fara aftur í blómaskreytingar – sem við erum fullkomlega sammála um að eigi ekki heima í lýðræðislegri umræðu – er heldur óheppilegt, að þú skulir ráðast svona á aðra konu. Það var ekki einu sinni í hita leiksins. Þú hafðir möguleika á að hugsa þig tvisvar og jafnvel þrisvar um, fara í sturtu og dansa kirtan, áður en þú ýttir á „post“. Þú verður að passa hvað þú skrifar, Vigdís. Það er ekki málefnalegt að kalla aðra manneskju viðrini.

Það seinasta sem mig langar að ræða við þig í þessum pistli eru (ó)beinar árásir á kollega þína. Í erindi þínu í gær nefndir þú ósýnilegan her sem ræðst á þig á netinu, eða hulduherinn eins og þú kallaðir hann áður. Í frétt MBL segir: „Það eru þekkt nöfn á bakvið þetta,“ sagði Vig­dís en neitaði að nefna nöfn í því sam­bandi.“

Þú og ég, Vigdís, við vitum það bæði að þú þarft ekki að nefna nöfn. Þú ert nefnilega búin að því. Það gerðir þú í október, þegar þú nafngreindir kollega þinn úr þinginu og sagðir að hulduherinn væri “treinaður upp á bloggsíðum og í kommentakerfum”. Það eru ansi grófar ásakanir, Vigdís, og eiga ekki heima í lýðræðislegri umræðu.

Tónninn þarf að breytast í umræðunni, um það erum við sammála. En stundum þurfum við að byrja á okkur sjálfum, Vigdís. Þú líka.

Að lokum vil ég benda þér á þetta myndband. Það fjallar um skítabragðið „Ad hominem“ eða persónuárásir. Þú gætir einnig haft gagn af þessari grein um fórnarlömb og blóraböggla sem taktík.

Skítabragð: Ad hominem. Þetta bragð er oft notað í rökræðum – en á alls ekki heima þar. www.retorik.is

Posted by Retorik.is on Saturday, November 7, 2015

Höfundur

Daily Snow Leth

Daily Snow Leth er stud.mag í retórík við Kaupmannahafnarháskóla. Retóríkleiðbeinandi hjá rökræðuskóla Politiken. Ritstjóri hjá RetorikMagasinet.